laugardagur, janúar 21, 2006
veruleika-tékk
Þetta er tekið á nýársdag í bíltúr. Tek fram að aumingja Díkó fékk smárest af þessari gómsætu rækjusamloku.
Í gær fórum við mamma og Birna Rún austur í Hveragerði að undirrita kaupsamninginn. Eftir ótrúlega langan fund þar sem lopinn virtist vera teygður út í hið óendanlega vegna hita og upplesturs á hverju einasta °#*x!$ orði á öllum blöðum -kom sjokkið! Í ljós kom að ég átti að borga 700 þúsund meira en ég hafði svona áætlað. Hún hafði ekki talað fyrr um þessar tölur sem hún slengdi fram svona í lokin-ok, hún minntist á prósentur af láninu en ég stóð í þeirri meiningu að því væri dreift á greiðslur á láninu en ekki borgað strax! Enda veit ég ekkert alltof mikið um fasteignaviðskipti. En ég nenni ekki að fara út í þetta allt aftur þar sem það eyðileggur ánægju mína af þessum viðskiptum.
Ég ætla samt að hringja á mánudagsmorgun í Félag fasteignasala og fá útskýringar á því sem ég skil ekki. Þetta ætti samt allt að "reddast" eins og oft vill verða um hluti.
Í dag fór ég aftur á móti austur með bílfarm af kössum og Ólöfu Jónu heldur bjartsýnni en í gær. Við höfum haft afar huggulega helgi 2 einar þar sem Bubbi er aftur farin vestur á Bíldudal að vinna. Það var mjög gaman að kíkja austur og byrja að bera inn svolítið og undirbúa málningarvinnuna. Mér fannst þetta samt hálfskrítin tilfinning, að ég "ætti" þetta alltsaman. Ég fékk næstum því víðáttubrjálæði.
Ég er semsagt búin að jafna mig á þessu reality-check-i sem skall á okkur í gær og er nú bara afar hamingjusöm með kaupin.
Haha, Bubba og Árna Kóps var meinaður aðgangur að Þorrablóti Patreksfirðinga, nú rétt í þessu vegna ófullnægjandi klæðaburðar en þeir pökkuðu ekki jakkafötunum þegar þeir fóru vestur að vinna. Hef samt engar áhyggjur af því að hann láti ekki rætast úr kvöldinu.
Jæja, best að halda áfram að fylgjast með æsispennandi úrslitum Eurovision undanúrslitin. Þvílík lög maður!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þau eru ótrúleg þessi gjöld sem koma í bakið á manni í fasteignaviðskiptum. Mundu að það eru líka gjöld sem þarf að borga þegar þú selur á Tjarnabraut..
Voðalega eru Patreksfirðingar snobbaðir.. Við hér á norðurlandi erum ekki mikið í þessum gír. Enda með afbrigðum ljúft og gott fólk sem býr hér..
Enn og aftur til lukku með íbúðina, líst vel á að gera e-ð með þér í henni um helgina. Ég er sérstaklega góð í að skipta mér af...
Skrifa ummæli