fimmtudagur, janúar 26, 2006

Jæja, þá er allt komið í höfn með húsið í Hveragerði og ég er búin að kaupa mér fínan gálgafrest fram í maí en þá fer síðasta greiðsla fram í afsalinu. Við fórum eina draslferð í fyrrakvöld og ég byrjaði aðeins að raða í skápa í fína fína eldhúsinu mínu. Okkur hlakkar alveg ofboðslega til að flytja þangað en ég vil helst ekki flytja þangað ein, Bubbi er mikið úti á landi að vinna þessa dagana og mig langar að bíða með að alflytja þangað til hann getur komið með.
Við ætlum að mála stofuna og 2 svefnherbergi til að byrja með. Svo ætti bara allt að vera tilbúið. Og þá geta allir farið í pottinn:)

Bubbi er víðsfjarri og hefur varla tíma til að standa í þessum flutningum. Hann er núna að vinna við Jökulsárlón sem standby-kafari ef bílaauglýsingin færi illa og Volkswagninn skyldi hrynja niður í vök. Þetta er agalega spennandi allt saman. Þyrlur og sexhjól þeysast í kringum þessa splunkunýju og háleynilegu útgáfu af Folla. Eftir tökur í gær var svo farið með allann mannskapinn á hótel Skaftafell í gistingu (þar mátti m.a sjá þyrluna barasta parkeraða fyrir utan) og þar átu allir og drukku á kostnað hins þýska fyrirtækis. Já, þeir sletta skyrinu sem eiga það.
Í dag eiga svo einhverjir 3-4 toppar frá Volkswagen að koma austur og fá að fylgjast með tökum sem eru í raun bara show-off, þar sem allar aðaltökur eru búnar en þeir eiga að fá að fylgjast með bílnum keyra á ísnum og svona.

Það er ekki laust við að maður eigi eftir að sakna prestannna og sona þeirra af efstu hæðinni á Tjarnarbrautinni. Í gær stóð prestlingurinn og fylgdist með mér leggja og setti svo aðeins út á það... Ég skil ekkert í því en þetta er eini maðurinn sem Díkó urrar voðalega á. Venjulega flaðrar hann bara og sleikir allt og alla. Ég þorði ekki að hleypa hundinum úr bílnum fyrr en presturinn var farinn. Díkó væri líklega ekki í þjóðkirkjunni þó það væri í boði.

Jæja, er farin í kaffi. Vonandi er eitthvað nammi í boði uppi á kaffistofu.

p.s Bubbi tók mynd af bílnum á símann sinn í gær (þeir sem standa að þessu fullyrða að engin mynd sé af honum á netinu- slíkt er öryggið) og getur selt hana á netið fyrir nokkra hundraðþúsundkalla- myndin er til sölu fyrir rétta aðila!:p

Engin ummæli: