þriðjudagur, október 28, 2008

Barnalandssíða

Jæja, þá er ég búin að setja á laggirnar Barnalandssíðu. Dugar ekki minna til en heil síða á al-netinu fyrir litla undrið.
Annars gengur bara vel. Hún er farin að vaka talsvert meira. Auk þess hefur hún verið svolítið pirruð í maganum sem kemur helst fram í því að hún rymur og hneggjar á næturnar. Er t.d. ansi þreytt eftir hnegg síðustu nætur og ætti eiginlega að fara að hunska mér í rúmið.

En jæja, ætla ekki að tefja ykkur meira. Svo þið komist á síðuna okkar sem er :http://barnaland.is/barn/80751
Ég mun svo breyta nafninu á slóðnni síðar í samræmi við nafnið sem hún fær eftir 3 vikur.
Og svo vil ég endilega kvitt í gestabókina :)

föstudagur, október 24, 2008

Nokkrar myndir...

Bloggspottið var e-ð leiðinlegt í gær, en nú sýnist mér ég get dritað inn nokkrum myndum:)
Fyrst er agalega sæt mynd af "litlunni"

Maður getur líka verið ansi "mean looking".

Hér er verið að baða í fyrsta sinn (hefur bara farið í sturtu hingað til) og stóra systir fylgist vel með:)


Við fórum í heimsókn til Hönnu Bjargar frænku(er sjálf sett í næstu viku) , hún og Andreas knúsuðu mig.

Hér er Sigrún frænka með mig. Tekur sig bara ansi vel út sem frænka:)

fimmtudagur, október 23, 2008

1 mánaða pæja

Þá er litla skvísan orðin mánaðargömul og ég er búin að gefa mig loksins og ætla að fá mér svona bannsetta Barnalandssíðu!!

Mun senda út slóðina þegar hún er tilbúin.

Maður hefur bara svo gríðarlega þörf á að útbúa sér síðu á internetinu fyrir barnið svo að sem flestir geti dáðst að henni.

Síðan kostar 3000 kall fyrir árið og auk þess fæ ég aðgang að auglýsingadálknum en það hefur viljað loða við þetta heimili að hér gengur ýmislegt kaupum og sölum.

Núna vantar okkur t.d. að losna við fjölþjálfann (hægt er að gera 64 mismunandi æfingar í honum;) ) En fjölþjálfi þessi hefur hangið inn í skúr yfirgefinn í heilt ár. Bubbi notaði hann nokkrum sinnum, fór þá út í skúr, settist á hann og reykti sígarettu á meðan hann tosaði í nokkur bönd á þessu. Vá hvað hann barðist til að fá þetta lífsnauðsynlega tæki, keyrði upp á Skaga og allt til að kaupa þetta. Gæjinn sem seldi honum þetta er örugglega enn að flissa að þessu.

Helga sem ég var að vinna með í gamla daga í 10-11 var að eiga sitt annað barn, litla stelpu í nótt. Innilega til hamingju með prinsessuna, Helga og Marco.

Set inn myndir á morgun -nema ég verði bara komin með barnalandssíðu... (fjandinn, er með hálfgerðan hroll að þurfa að éta oaní mig mínar fyrri yfirlýsingar um þessa síðu)

mánudagur, október 20, 2008

Skírn og bílaskipti

Höfum ákveðið að hafa skírnina 15 nóvember. Það vill svo skemmtilega til að það er afmælisdagur Einars, pabba Bubba.
Hringdi í dag í prestlinginn og hann samþykkti að koma og skíra heima en reyndi þó að fá okkur til að skíra í kirkjunni frekar.

Ég myndi kannski vilja skíra í kirkju ef ég léti Einar í Fríkirkjunni skíra, en annars vil ég bara hafa þetta heima.

Ætla að reyna að fá lánaða skál sem Helga amma á, sem hinir og þessir hafa verið skírðir upp úr:)

Ætlum að bjóða bara nánustu fjölskyldu og nokkrum vinum.
Margir ættingjar ætla að baka eitthvað og koma með svo þetta ætti að verða nokkuð auðvelt... , en ég á sjálfsagt eftir að missa mig samt... Svona veislur fara auðveldlega úr böndunum.

Erum búin að ákveða nafn, eða ég svona eiginlega kom með hugmyndina... og Bubbi samþykkti. Hann hafði samt meira um seinna nafnið að segja:) Hér ríkir jafnræði sko.

Þá er bara að fara að útbúa boðskort og senda út.
Hljómar auðvelt.

Á morgun ætla ég að prófa að mæta með litluna á svona mömmumorgun í kirkjunni. Þar hittum við aðrar mömmum og krílin þeirra. Gæti orðið fjör.

Hún tók sig til og vakti meira og minna í alla nótt. Fyrsta svona erfiða nóttin okkar :/ en veit samt að þetta gæti hafa verið miklu miklu verra. Hún háorgaði ekki neitt, urraði bara og rumdi, var mjög pirruð enda hljómuðu smellir og dynkir úr maganum á henni. Hún var s.s. með í maganum.
Gæti verið mér að kenna, drakk frekar mikið kók í gær... Líklega í lagi að fá sér 1-2 glös, ekki 5-6.

Já og svo höfum við selt trailerinn og pikkinn varð að fara með því hann er einn af fáum bílum á landinu sem er með búnað til að draga þennan trailer.
Græddum ekki á þessu, lánin voru bara yfirtekin. Svo við misstum þessa milljón sem við áttum í pikkanum, en í staðinn erum við búin að létta mánaðarlegar afborganir talsvert.
Í staðinn tókum við yfir hvítan Chevrolet Suburban "03, voða töffaralegur. Og í tilefni kreppunnar tókum við líka yfir snjósleða sem er reyndar á ísl. lánum (fáheyrður munaður núorðið) í staðinn f. öll dekkin sem Bubbi flutti líka inn og passa undir trailerinn.
Fengum því í raun 800 þús. f. dekkin því það hvílir bara 400 þús. á sleðanum.
Bubbi er himilifandi með hann og nú er skúrinn okkar orðinn fullur í orðsins fyllstu merkingu af leikföngum að ógleymdum brennsluofninum mínum og fjölþjálfanum hans Bubba sem hvorugt er notað. Já það er gott að eiga drasl... Það er nú komin kreppa....


Já og svo óska ég eftir fínum síðum skírnarkjól. Mamma lét mig hafa voða fínan kjól um daginn, alsettan blúndum. Ég var skírð í honum. En hann er stuttur og mig langar svo að hafa síðan. En ég sé til. Kjóllinn minn er nú voða sætur. Barnið myndi vera eins og rjómabolla í honum.
Og ein mynd í lokin.

þriðjudagur, október 14, 2008

Myndir af Brjóstmilkingnum

Hér kemur alveg hrúga af myndum, því öllum finnst barnið svo agalega sætt að allir vilja sjá fullt af myndum af henni :D

Hér er mynd af mér í galla sem Birna Rún átti og seinna Lea.


Stundum er hægt að fá mig til að brosa eftir pöntun, ef mér er strokið um kinnarnar :D
Það er stundum erfitt að vera svona lítill. Annars var pabbi að stríða mér og strjúka varirnar. Var bara nýbúin að drekka og ætlaði ekki að láta lauma neinu upp í mig.

Birna Rún og Stjáni kíktu í heimsókn og voru að prófa mig.

Pabbi með stelpurnar sínar. Stóru systur finnst voða gaman að halda á mér. Já, það er rosa gaman að halda á mér...Á leiðinni í bæinn. Í nýja gallanum frá ömmu Aggú og með nýju húfuna sem amma Brenda prjónaði.

Með vinum mínum í vöggunni.















Svona geri ég þegar ég er orðin aðframkomin af hungri :)















Svona er ég þegar ég er virkilega södd, eins og drykkjurútur á 13 bjór.















Með pabba













Og enn er komið fólk að halda á mér:)
Afi Sævar og Amma Ólöf fengu að prófa mig.
Og Þórný Helga frænka sat alveg heillengi með mig.

sunnudagur, október 12, 2008

Takk fyrir okkur :)

Hef alveg gleymt að þakka kærlega fyrir okkur en við höfum fengið helling af flottu dóti og fötum f.stelpuna
Frá mömmu fengum við rosa flottan 66°Norður galla
Ólöf, Pabbi og Þórný Helga gáfu leikteppi (sem hún prófaði í fyrsta sinn í dag, fannst það rosa gaman:) galla-smekkbuxur og jakka.
Ólöf Jóna stóra systir gaf systur sinni fína spiladós, galla og æðislega sætan sundbol :)
Brenda, mamma Bubba gaf stelpunni heilt prjónasett, buxur, peysu, húfu og hosur. Alveg bráðnauðsynlegt að eiga svona prjónaömmu :)
Sigrún systir Bubba gaf okkur mjög sætt teppi og snuddu-band sem við erum búin að nota alveg heilmikið.
Lea gaf henni 3 galla sem passa bara alveg strax og hettupeysu sem er agalega sæt:)
Katrín systir Bubba gaf ballerínusængurver og mjög sæta úlpu.
Gemma og Einar, pabbi Bubba gaf líka rosa flotta úlpu.
Lilja hans Þórarins (bróðir Bubba) var búin að senda okkur flottar samfellur um daginn frá Afríku.
Didda frænka gaf pening og við erum búin að kaupa kerrupoka, barnapíutæki og gjafapúða fyrir það:) Kom sér mjög vel alltsaman.
Þessi gjafapúði er algjör snilld. Hef verið að notast við venjulegan kodda hingað til og fannst svona gjafapúði algjör óþarfi en hef sko skipt um skoðun :)

Síðustu helgi kom svo mamma frá útlöndum og gaf henni annan galla (hinn var soldið stór og hann verður notaður síðar), samfellur og sokkabuxur.
Pabbi og þau kíktu líka í vikunni og Ólöf var þá búin að kaupa handa litlu bleikt flísteppi sem stendur á "Hér kúrir lítil prinsessa" Þeim fannst ekki passa að hún hefði verið vafin í blátt flísteppi á fæðingardeildinni :D En það hafði ég keypt sjálf í Rúmfó áður en hún fæddist því bæði var það ódýrt, þessi bleiku sætu voru búin (nema e-r þunnildi) og svo fannst mér sniðugt að gefa skít í þessa kynjaliti... Hún var líka orðin þekkt á sængurkv.ganginum sem "litla stúlkan í bláa teppinu" haha.

Held ég sé ekki að gleyma neinum... látið mig vita ef ég hef gert það...

þriðjudagur, október 07, 2008

2 vikna í dag

Þá eru komnar 2 vikur síðan daman kom í heiminn með látum. Síðan hafa aldeilis ekki verið lætin í henni. Engar óstöðvandi grenjur eða óreglulegur svefn. (7-9-13) Veit að sumum finnst ég vera farin að storka örlögunum fullmikið núna :D

En það er annar heimilismeðlimur að gera mér lífið leitt. Læðan Skvísa Rós. Hún er komin á lóðarí og vekur mann á næturna með háværu væli. Í morgun (eða eiginlega í hádeginu...)vaknaði ég við kattahlandsfýlu og rauk framúr og þefaði um allt hús. Fannst ég geta staðsett fýluna og skúraði svo baðið, stofuna og ganginn... Fann poll bakvið sófann og 3 klst. seinna annan inn í þvottahúsi. Það eru sko samt örugglega fress sem eru að merkja svona, enda rak ég einn út áðan og annan af ruslatunnunni.

Barnið var farið að væla inni í rúmi en ég varð að klára að skúra fyrst, gat ekki hugsað mér að fara fram með hana í þetta. Finn alveg lykt ennþá, en vona að ég hafi fundið allt hlandið.

Er búin að panta geldingu f. læðuna á morgun. Svo að við mægður förum í okkar fyrstu bæjarferð á morgun.

Ástæðan fyrir því að við "þurftum" að sofa svona lengi var sú að við vorum sko í snúningum eldsnemma í morgun. Bubbi hringdi í losti rétt f. 8 og sagði að eldsneytið myndi líklega hækka um 50kr./l. síðar í dag... fjúff. Rauk til og fyllti báða bílana og pikkinn tekur nú ekkert smáræði sko.
Bara til að frétta það þegar ég vaknaði svo í hád. að eldsneytið hefði LÆKKAÐ um 13 kr... Maður er nú orðinn soldið slæptur á þessu rugli.

Fann mig líka í því að hamstra 2 bleyjupakka í gær. Ég meina, það er farið að vanta vörur í margar hillur í Bónus... En í dag heyrði ég að við eigum víst ekki að líða skort. Né þarf ég að fara að notast við taubleyjur... á samt 25-30 stk. Var meira að segja farin að hugsa hvar ég gæti fengið bleyjuplöst. Og var farin að pæla bara í innkaupapokum. Maður getur sko alveg lifaði í kreppu.

Ætla ekki einu sinni að skrifa um þessi 3 erlendu lán sem við erum eigendur að (ekki hamingjusamir þó) v. trailer-sins, mótorhjólsins míns eða pikkans. Hringdi áðan og fékk stöðuna og hún er mun hærri en síðasti greiðsluseðill sagði til um, samt er búið að lækka þau um nokkur hundruð þúsund því ríkisstjórnin setti hámark á þessa vísitölu eða hvað þetta heitir nú...

jæja, best að setja inn myndir af skvísunni bara til að enda þetta á gleðilegan hátt. Þetta eru samt ekki nýjustu myndir, vikugamlar. Þarf að hlaða inn nýjum myndum af vélinni.



Stór geispi hjá stóru systur.

föstudagur, október 03, 2008

Aðeins fleiri montmyndir:)

Svona var hún dugleg að drekka á spítalanum fyrstu dagana. Var of löt til að taka brjóstið. Þá fékk Bubbi að spreyta sig í mjólkurgjöf.




Það gengur glimrandi vel með stelpuna. Ljósmóðir kom í heimsókn í morgun og vigtaði hana og mældi höfuðmál. Hún er að þyngjast hæfilega og höfuðmál var það sama og v. fæðingu. En þá var hún náttúrulega m. svo ægilegt conehead eftir sogklukkuna að það var ekki að marka myndi ég halda...



Hún sefur vel á og ég var farin að hafa áhyggjur af því að hún svæfi of mikið á nóttunni, en hún tekur alveg 6 - 6,5 tíma dúra á nóttunni. Vaknar svo og drekkur smá og sefur svo c.a. 2 tíma í viðbót.

Í nótt reif ég hana svo upp eftir 4,5, klst. svefn og hún nennti sko ekkert að vakna þetta til að drekka. Reyndi að troða í hana í 20 mín, gafst svo upp og lagði hana aftur í vögguna. En eftir það svaf hún frekar illa. Ljósan sagði að það væri algjör óþarfi að vekja hana. Sum börn byrjuðu bara strax að sofa vel yfir nóttina og það væri ekkert til að hafa áhyggjur af. Ef drykkjan er regluleg yfir daginn má taka svona langa pásu yfir nóttina.







"HA! ég heyrði ekki alveg"






Í samfellunni frá Lilju. Textinn á henni á vel við:) (worth the wait)





















Smá kroppasýning.