Ég er að reyna að bæta mig í blogginu og hér kemur eitt lítið blogg ásamt einni sætri mynd af frænknunum Söru og Ólöfu Jónu. Um helgina eru Blómstrandi dagar og það er heilmikið um að vera. Ég ætla að mæta á markaðinn sem verður við skólann á laugardaginn og svo langar mig á bókamarkað og myndlistarsýningar líka. Í fyrra gerði ég fín kaup á þessum markaði en bestu kaupin voru án efa myndin Stella í orlofi sem við skemmtum okkur mikið yfir. Í gær byrjaði ég í jóga og það er var alveg hreint yynnnndislegt. Ég ætla mér að stunda þetta í vetur og koma betra jafnvægi á allt kerfið:) Og ekki er þetta dýrt (er reyndar orðin frekar firrt held ég...) 20 þúsundkall fram að jólum. Fyrir þá sem muna eftir Kára sem ég var með frá 16 ára til 20 að þá var pabbi hans að deyja og ekki var hann nú gamall blessaður kallinn. Kannski á milli 55 og 60 ára. Ferlegt að heyra þetta. Hann var búin að vera mjög veikur lengi eftir heilablóðfall fyrir 2-3 árum. Skólinn er byrjaður og þetta fer ágætlega af stað. Mér finnst samt eins og þetta er næstum óyfirstíganleg vinna og finnst að ég sé ekki að afreka neitt sérstakt en þetta er nú bara rétt farið af stað og ég er enn bara að kynnast krökkunum en ég er með nýjan bekk. Er að hugsa um að reyna að minnka kröfurnar á mig og byrja á að kynnast krökkunum og afhenda lestrarbækur... |
föstudagur, ágúst 24, 2007
Ýmislegt
sunnudagur, ágúst 19, 2007
Menning & Adrenalínsjokk
Menningarnótt er liðin og við eyddum deginum í Viðey og dántán. Það var rólegt og gott í Viðey og ég komst að því að í gamla daga (fram á síðustu öld) var byggð þarna sem nefndist þorpið. Ég komst líka að því að Eykt, byggingarfyrirtæki nokkuð reyndi að kaupa eyna fyrir ekki alls löngu til þess að reisa þarna ellimannablokkir og smala gamlingjunum þarna út. Þá hefði væntanlega verið komið fyrir brú og læti..... Sumum er EKKERT heilagt. En sem betur fer neitaði Reykjavíkurborg. Reyndar eru þeir farnir að koma fyrir listaverkum þarna eins og ferlíkinu hans Ólafs Elíasarsonar. Þó maðurinn sé snillingur og geri flott verk að þá er alveg óþarfi að láta þetta tróna á toppnum á Viðey. Þetta er ekki alveg að falla inn í umhverfið. Og svo er víst verið að fara að koma fyrir einhverri bölvaðri súlu frá Yoko Ono upp á fleiri fleiri metra. Þetta er ekki alveg að passa inn. En annars hefur staðnum verið haldið nokkuð ósnortnum (miðað við framkvæmdir annarsstaðar...) sem er vel. Í miðbænum var ekki eins rólegt. Ég gerði þau mistök að fara með hundinn í bæinn og geri það ekki aftur. Ég er með fleiður á hnúunum eftir ótal rikkingar hundsins, þar sem ýmislegt heillaði forvitin hund. Ýmsar kræsingar lágu í götunni, fullt af öðrum hundum hittum við og ótal börn pikkuðu og potuðu í hann við góðar undirtektir(ekki minna þó). Ég reyndi sem ég gat að halda honum nálægt mér með því að vefja ólinni um hendina á mér og stytta þannig í bandinu en uppskar þá bara eins og ég sagði áður: fleiður. Hitti aðeins á Sigrúnu og fjölskyldu en eirði engu. Hafði ekki þolinmæði í neitt lengur en þetta lagaðist allt þegar ég hitti mömmu og Bigga sem tók við hundinum. Enda mátti vart tæpara standa, ég var að missa það... Mamma gaf okkur Ólöfu Jónu ís eftir að við skoðuðum okkur aðens um niðri í myrkrinu í þjóðveldiskjallaranum þarna á hótelinu og svo sátum við á góðum stað í rúma klst. á Ingólfstorgi að glápa á mjóa gellu í litlum fötum dansa indverska dansa og svo var danshópurinn hennar mömmu með línudans. (hún var reyndar ekki með núna því hún fékk blóðtappa í löppina um daginn) Þetta endaði s.s bara ágætlega. úffpúff. Á föstud. sl. bauð ég Bubba í river-rafting á Hvítá. Hann átti s.s afmæli á fim. Það var ágætis fjör en ég hefði viljað meira action í flúðunum, sem voru frekar slappar að mínu mati. Ég ákvað svo að stökkva ef klettinum en hægt var að velja 3, 5 eða 7 metra hátt stökk og mér fannst að ég mætti hundur heita ef ég þyrði ekki að stökkva þessa skitnu 3 metra. Ég ætlaði aldrei að þora en lét svo Bubba stökkva á undan (þegar hann var búin að fara 7m. stökkið sitt) og byrjaði svo að garga þarna uppi þar sem ég stóð, gargaði svo aftur, stökk og gargaði alla leið ofaní á. Þar fékk ég sjokk og ætlaði ekki að geta andað þegar ég kom upp aftur. Þessu hef ég aldrei lent í áður, og ætla að sjá til þess að ég geri aldrei neitt svona aftur sem ég er ekki tilbúin í. Maður á ekki að pína sig til að gera eitthvað sem maður er hræddur við. Ég þjáist af lofthræðslu og auk þess er ein af mínum stærstu hræðslum að drukkna, hlýt að hafa drukknað í fyrra lífi. Ég kom t.d blá út af Titanic hér um árið því ég hélt alltaf í mér andanum þegar Jack og gellan voru í kafi, ógeðslegt. En ég s.s náði varla andanum því ég andaði svo grunnt og hratt. Svona eins sjúklingarnir í Bráðavaktinni þegar lungun eru fallin saman og það eina sem getur bjargað þeim er að stinga gat á hálsinn. Við erum að tala um að lungun öskruðu á loft og það hvein svo hátt í mér í allir heyrðu og gædinn sagði að ég þyrfti ekki að skammast mín, því stuttu áður hefði víst verið 150 kg maður sem kom grenjandi á land aftur.... ég var ekki að hugsa um skömm þarna, heldur hugsaði ég um hversu vitlaus ég væri að gera eitthvað svona... Svo meig ég NÆSTUM því á mig! Bubbi krækti í mig og sagði mér að slaka á. SLAKA Á í algjöru kulda og hræðslusjokki. Svo byrjaði ég að hlæja þegar ég komst upp á land....!!! Bubbi fræddi mig sposkur um að þetta væri adrenalínið og var loks á heimavelli í útskýringum um viðbrögð mín við einhverju. Annars skilur hann yfirleitt lítið af viðbrögðum mínum við ýmsu... ;/ jæja, nóg í bili |
miðvikudagur, ágúst 08, 2007
Sumarmyndir
Buhu, vinna á morgun.
O.M.G Vinnan byrjar á morgun. Ég er engan veginn undirbúin undir það. Hitti kennara úti í Bónus áðan og við fengum báðar hroll yfir tilhugsuninni um vinnu á morgun. Oj bara. En maður verður nú að reyna að vera jákvæður og hugsa sem svo að það eru nú enn eftir nokkrar ágústhelgar sem verða víst að teljast með sumrinu þó ég sé aftur mætt í skólann. Mikið væri nú gaman að vera að fara bara sjálfur í skóla... Fyrir síðustu helgi festum við Bubbi kaup á Enduro hjóli fyrir mig. Fyrir þá sem vita ekki hvað Enduro er , þá er það svona torfæru hjól eða stundum kallað krossari (held ég) Ég er búin að fara nokkrar styttri ferðir á því og byrjaði á því að hjóla frá Stokkseyri niður í fjöru, fram hjá Litla Hrauni og allt. Fannst samt illa gert að bruna fram hjá Hrauninu og glenna þetta framan í aumingja fangana. Sú ferð gekk ágætlega en ég var samt næstum farin að grenja þegar við vorum búin að hökta svolítinn spöl á hrikalega grófum stein-stíg. Ég réði bara alls ekki við hjólið en djöflaðist samt áfram þó ég fyndi ekki fyrir höndunum á mér lengur. Var farin að íhuga hvað þetta hefðu verið slæm kaup þar sem ég einfaldega gæti þetta ekki. En síðan hef ég ekki farið á svona hræðilegan stíg og ég skemmti mér t.d mikið betur í torfærubraut sem var fyrir utan Flúðir um helgina. Þar var líka í lagi að detta, bara mjúkur sandur undir. Já við eyddum s.s verslunarmannahelginni á Flúðum. Þar var dúndurveður og erum við fegin að hafa ekki stigið fæti norður á land. Ætla að koma inn mynd af mér og hjólinu fljótlega. |
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)