mánudagur, ágúst 28, 2006

Er sumarið strax búið...?

Hafiði tekið eftir því að veðrið er farið að kólna? Úff. Við Ólöf Jóna fórum að tína ber áðan og vorum örugglega í tæpan klukkutíma og ég er rétt svo núna að ná hita í mig aftur. En við fáum allavega skyr með bláberjum í kvöldmat.
Um helgina voru blómstrandi dagar og ég gerði góð kaup á markaði sem var haldin við skólann. Ég keypti 2 spólur, Stella í orlofi, sem við gláptum á strax á laugardagskvöldið, svo keyptum við Stundina okkar með Felix og Gunna, sem hefur verið mikið í gangi-vægast sagt.
Hef annars ekkert að segja, vinnan er fín og veturinn er að skella á. Ég vildi að það kæmi bara ein sumarhelgi í viðbót....

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

verslunarmannahelgin




Ólöf Jóna fékk að fara drullupollaferð með pabba sínum um verslunarmannahelgina. Henni fannst alveg óborganlega gaman eins og sést.
Skólasetningin var í dag. Agalega spennandi að hitta öll börnin og ekki síður foreldrana því þeir skipta mjög miklu máli líka.
Mætti stútfull af hori og reyndi að láta alla heyra í mér.
Dreif mig svo beint heim eftir þessa afar stuttu og látlausu athöfn í stofu 3 og hef eytt deginum í snýtingar og videogláp. Mér leiðist svo að ég reyndi að hringja í mömmu og fá sultu-uppskrift. Var sko að vigta rabbarbarann og ég á heil 3 kíló-frosin, fyrir utan allt í garðinum. Á líka góðan rifsberjarunna en Bubbi var að fúaverja og notaði úðakönnu þannig að berin eru fremur ókræsileg húðuð í fúavörn! Geri líklega ekki svoleiðis í ár. Svo væri gaman að búa til bláberjasultu því hún er best, en til þess þyrfti ég að tína hér fyrir ofan götuna og það er allt of langt út fyrir garðinn minn....

Jæja, nóg í bili

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Vinnan og 30.afmæli

Er byrjuð í nýju vinnunni Líst ágætlega á þetta. Þetta er svolítið eins og að stökkva 10 ár tilbaka í tækjakosti og aðbúnaði.... svona hér um bil.
Í stofunni minni (sem er í hluta sem líklega er byggður um 1940-50 er algjör steik á daginn því sólin skín ALLAN daginn beint inn um stóra gluggana. Mér var sagt að ég þyrfti ekki að pæla lengi í þessum hita því húsnæðið er svo illa einangrað að ég mun þurfa að klæða mig vel í vetur...
:I
Ég er búin að hertaka mér bæði myndvarpa og segulbandstæki en slíkur munaður er af skornum skammti, en ég þoli einmitt ekki að þurfa að redda mér tækjum til að geta sýnt t.d e-ð á glærum. Við erum sko að tala um myndvarpa, ekki skjávarpa.

Er að vinna með Bryndísi einni sem ég var með í Kennó og mér líkar alveg hreint ágætlega við hana. Rólyndismanneskja. Kallinn hennar er líka að kenna þarna og ég komst að því í dag að 3 hjón/pör eru að vinna þarna. Myndi ég nenna því....!

Bubbi er 30 ára í dag og hann er ekkert afmælisbarn. Það er ekki til í honum afmælisgleði. Við Ólöf Jóna erum búnar að gefa honum gjafir, ég gaf honum hálsmen (kross, erum að hugsa um að fara tengjast æðri mætti- tilkynnti Bubba það í morgun og hann varð hálfsmeykur) En menið er allavega töff- úr stáli, og það er ekki keðja á því heldur svona þunn gúmmíreim, sem hentar mun betur á svona vinnustráka.
Ólöf Jóna gaf hinum Joe Boxer náttbuxur og þær voru ekki ódýrar. En hrikalega þægilegar.

Ætli maður verði ekki voða myndó og fari með köku eða eitthvað í kaffinu til hans.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Ofur-andlitsendurnýjun.

Andlitsbað til auka útgeislun húðarinnar (e. Radiance Treatment) 90 mín. Ásamt hreinsun, gufu, skrúbbi úr sérvöldum virkum efnum undir áhrifaríku Guerlain þrýstinuddi, viðeigandi meðferðarmaska og léttri förðun. Meðferðin er fyrir þreytta og líflausa húð. Gefur húðinni aukinn ljóma ásamt fallegri og jafnari áferð. Mjög góð meðferð eftir aukið álag og veikindi. Kr. 9.900,- með sérhönnuðu þrýstinuddi frá Guerlain. Nuddað er upp úr áhrifaríkum "concentrate serumdropum" sem veita enn dýpri virkni Baðstofa fylgir ekki.....

Þetta er klausa af síðunni laugarspa.is. Er svona að skoða bara, og þvílíkar lýsingar!

miðvikudagur, ágúst 02, 2006


ég rétt hjá landmannaleið um daginn. svaka gella í öllu outfittinu. :)

Blessuð blíðan

Ó hve lífið er dásamlegt í svona hitum eins og þeim sem hafa verið undanfarið- já ég segi hitum! Eina sem skyggir á þetta dásemdar-frí-líf er tilhugsunin um að þurfa að mæta til vinnu eftir 9 daga! Mér finnst ég alls ekki tilbúin til að byrja á nýjum stað. Mér finnst sumarið rétt byrjað. Sérstaklega þar sem ég var fjarri góðu gamni upp í "sveit" fram í byrjun júlí.

Í dag eyddum við Ólöf Jóna deginum í Fjölskyldu og húsdýragarðinum í frábæru veðri. Hittum Ástu, Önnu og Hrönn með öllum þeirra krakkaskara. Hver þeirra er komin með 2 börn og alltsaman stelpur nema Hrönn á 1 strák- gott hjá henni. Við gátum kjaftað á meðan börnin hlupu um. Ferlega þægilegt- allavega fyrir mig þar sem Ólöf Jóna er orðin alveg 4 ára og getur sjálf hlaupið á milli leiktækja og hleypur ekki í burtu, eitthvað annað en dóttir hennar Önnu sem á örskotsstundu komst undir girðingu, yfir smátún og innfyrir girt svæði þar sem var verið að (nema hvað) mála. Og þar greip hún þéttingsfast utanum málverkið. :)

Annars er lítið að frétta, nema að ég er orðin svolítil brún og mér tókst að koma 2 litlum bresk/finnskum/íslenskum börnum upp á Latabæjar-batteríið í kvöld. Gaf s.s litlum frændsystkinum Bubba Latabæjar DVD-inn nr. 1 og þau horfðu sem dáleidd á með opna munna. Snilld að myndirnar eru gefnar út með ensku tali líka. Já, ég vann mér inn stig í dag. Þau munu muna eftir mér sem konunni sem átti alla kettlingana og gaf þeim Latabæ.

p.s. Tónleikarnir með Sigurrós um daginn voru ansi skemmtilegir, gaman að standa bara þarna og skoða allt fólkið. Hitti nokkra t.d. Möggu (sem er enn kennd við Stebba;) og Helgu Ágústs, vinkonu frá 10-11 síðan í gamla daga. Hún var ólétt, komin 4 mánuði á leið, til hamingju með það. Barnið verður örugglega hrikalega sætt, enda er kallinn hennar ítalskur.