miðvikudagur, desember 28, 2005

Jólagjafalistinn 2006

Nú var ég að prófa að setja inn mynd með blogginu, sé ekki hvort það heppnaðist. En ef myndin kom að þá er hún af Ólöfu Jónu og er tekin á menningardag/nótt í Reykjavík. Þetta er tekið inni í skartgripaverslun sem tyrfði gólfið með fyrsta flokks grasþökumog baldursbrám. Ég myndaði villt og galið þarna og á meðan byrjaði Ólöf Jóna auðvitað að tína fínu blómin, en ekki hvað? Ég þurfti að "endurplanta" blómunum!
En flott útstilling, finnst ykkur ekki?


Þá er að komast mynd á þetta,3 hafa þreytt prófið og fengu þau eftirfarandi: Birna Rún 100 stig (af 100 mögulegum), Aldís og Bjöggi fengu bæði 70 stig. Ég bætti 10 stigum á Birnu Rún og Aldísi en svarmöguleikinn er rangur í spurningunni um dýraeignina. Bjöggi fékk engin 10 aukastig, hann svaraði því hvorteðer rangt.
Niðurstaðan er því sú að Birna Rún fær glæsilegustu jólagjöfina næsta ár.
Spurning hvað hinir fá! Mikið er þetta skemmtilegur leikur.

En að öðru. Fórum út að borða á Lækjarbrekku í boði Diddu frænku í gær. Hún býður alltaf til árlegrar veislu á afmælinu sínu. Þetta var ægilega fínt og flott alltsaman. Ég fékk mér svona þrírétta matseðil og byrjaði á rjómalagaðri humarsúpu og svo komu hvítlkauks-grillaðir humrar - afar ljúffengt. Í eftirrétt var svo ís. Bubbi fékk aftur á móti miklu betri forrétt en ég en vildi samt ekki skipta og var snöggur að éta hann allann áður en ég komst í hann. Þetta var samt ægilega gott og ég svaf til hádegis í dag enn á meltunni.

Já og fréttir: Ég er búin að setja íbúðina mína á sölu og er hún metin á 13,8 millur, sem er 6 milljónum meira en ég keypti hana á. En við ætlum hvort sem er í stærra þannig að það hrekkur skammt. Þið getið skoðað auglýsinguna á mbl undir tjarnarbraut- 13,8 millj. en íbúðin uppi er líka til sölu á litlar 34 millur!
Við stefnum á Hveragerði og erum með augastað á húsi sem hefur yndislega elhúsinnréttingu, 60 fm. girtum palli, tvöf. bílskúr, fínum garði og síðast en ekki síst, heitum potti! Á 27,4 millj.
Hugsið ykkur partíin sem væri hægt að halda!
Þetta er allt í athugun ennþá en það er gaman að láta sig dreyma.


Jæja, nú er nóg komið- munið eftir prófinu, ég er svo spennt að sjá niðurstöðurnar

P.s. hvað á að gera um áramótin? Við ætluðum í bústað en hann kostaði 30 þús!!! Ætli endi ekki bara með almenilegu partíi hér heima!

mánudagur, desember 26, 2005

linkprufa

ok, er að prófa svona nýjung, ætla að athuga hvort ég kunni að búa til link. Here goes: http://kvikmynd.is/
Þetta er e-r auglýsing.

sunnudagur, desember 25, 2005

Blessuð jólin eru í hámarki sínu og afhverju eru þá svona lélégar myndir í sjónvarpinu?
Jólin í gær voru aldeilis fín, átum hjá mömmu og komum með okkar eigin hamborgarhrygg eftir yfirlýsingar þess efnis að það væri betra að eiga afganga heldur en ekki og þar fram eftir götunum. Fékk fullt af flottum gjöfum og kann ég þeim sem gáfu mér þær, bestu þakkir fyrir- þeir taki til sín, sem við á.

Erum búin að ná að halda áætlun í dag enda rak ég liðið áfram harðri hendi. Fyrst var það að sækja Ólöfu Jónu upp í Mosó og fara heim og opna þá pakka til Ó.J sem hún fær frá Pabba síns fjölskyldu og aðeins frá minni...
Svo var lagt af stað í förina miklu. Fyrst var farið til Sigrúnar systur Bubba, en dóttir hennar var 4 ára og þær Ólöf Jóna miklar vinkonur. Þau halda ekki jól því þau eru múslimar svo þetta er svolítið öðruvísi en gengur á flestum heimilum þessa dagana. Fínt að hafa afmæli bara í staðinn= 1 dags hátíðarhöld
Þvínæst fórum við til mömmu Bubba, eða ömmu Brendu... Ekki að hún brenni allt, heldur heitir hún semsagt Brenda. Amma Brenda hljómar samt stundum fyndið!
Eftir mikið hangikjötsát fórum við svo aftur í hangikjöt hjá föður mínum og eins og ég segi: í meira hangikjöt. Nú er hangikjöt auðvitað herramannsmatur, en öllu má nú ofgera. Án þess að ég vilji hljóma vanþakklátt.

Hef það annars dásamlegt núna, er komin heim og við eigum til haug af óhorfðum dvd-myndum og gnægð af konfekti ýmis konar.

Jæja, svona í lokin, ákvað að prófa að búa svona til og leyfa ykkur að spreyta ykkur þar sem ég veit að þið hafið ekkert betra að gera svona í jólafríinu.
Ykkur mun svo verða raðað í röð, ekki handahófskennt, á vinsældalistanum mínum eftir frammistöðu prófsins. Framtíðarjólagjafir verða svo í samræmi við það. Góða skemmtun
http://www.quizyourfriends.com/yourquiz.php?quizname=051225184349-484547

fimmtudagur, desember 22, 2005

Blessuð jólin nálgast

2 dagar til jóla og allt virðist ætla að ganga upp. Eins og það gerir reyndar alltaf.
Er reyndar ekki búin að vera neitt jólastressuð að ráði nema í gær, hluta úr degi. Ég var semsagt að kaupa jólaskó á Ólöfu Jónu og hefði ekki ætlað að það væri mikið mál! En það var öðru nær. Skórnir á höfuðborgarsvæðinu voru einfaldlega búnir. Allavega allir hvítir og ljósbleikir. Endaði niður á Laugavegi í barnafataverslun og keypti þar skó sem ég var ekki einu sinni sátt með! En ákvað bara að láta staðar numið þarna.

Í gærkvöldi rúntuðum við austur í Hveragerði skoðuðum hús þar. Reyndar ekki innandyra þar sem fólkið er flutt úr húsinu, en kíktum á alla glugga og þetta er draumahúsnæðið.
En nú er bara að leyfa jólunum að líða og fara svo að ath. hvort maður sé lánshæfur fyrir ósköpunum. Það væri óneitanlega gaman ef þetta yrði hægt:)
Það er pottur úti á pallinum! Þarf að segja meira?

Á leiðinni heim fundum við okkur jólatré sem stóð bara þarna og bað um að láta saga sig. Þetta var hvort eð var á landi sem verður komið undir malbik eftir áratug.
Semsagt góður rúntur til vonandi framtíðarheimilisins og arðbær upp á jólatréð að gera.

Jæja, best að fara pakka inn jólagjöfum.
Það þýðir ekki að slá slöku við þessa síðustu daga...

Eruð þið orðin full eftirvæntingar yfir jólunum?

sunnudagur, desember 18, 2005

Ofurhúsmóðir

Jæja, þá er maður allur að hressast eftir langvinn veikindi:p
Í gær fórum við Bubbi í bæinn og það hefur hvílt eins og mara á okkur að upplifa þessa ferð. Ég þoli auðvitað búðarhangs en það sama er ekki hægt að segja um Bubba.(þó ég hafi reyndar mikla ímugust á Kringlunni/Smáralind) Ég uppgötvaði leynitrikk sem nota má á mennina þegar jólainnkaupaferð er þeim orðin óumflýjanleg. Það er óhætt að segja að þetta trikk verði notað um ókomin ár. Galdurinn felst m.a. í því að minna skipulega á yfirvofandi bæjarferð í heila viku. Svo þarf að útbúa hnitmiðaðan lista yfir það sem vantar svo enginn tími fari í óþarfa-vafur eða snöfl í verzlunum, og fara nokkrum sinnum yfir hann.
Svo rann laugardagurinn upp, þ.e. gærdagurinn.
Við fórum í 2-3 búðir og svo ætluðum við á kaffihúsið á 2. hæð í Smáralindinni. Þar var brjálað að gera svo við skutluðum okkur inn á Fridays og nú kemur töfralausnin: að gefa manninum bara Carlsberg bjór. Og það sem gerði gæfumuninn var aukaflaskan! Ég skal sko segja ykkur það að innkaupin gengu framar öllum vonum. Á tímabili hélt ég að hann væri orðin ofjarl minn í þessu, þar sem ég var alveg að gefast upp á þessu búðarrápi. En ég kvartaði sko ekki!
Komum heim eftir 5 tíma ferð með 3 jólagjafir, lykla sem hafði lengi vantað, jakkaföt og ýmislegt nytsamlegt annað.
Ég vil bara benda öðrum konum á þetta sem þurfa að draga mennina í búðir: gefið þeim bara bjór og þá gengur þetta allt mikið betur. Ég meina, hann meikaði meira að segja Söstrene Grene búðina. Og geri aðrir betur.

Í gær var líka matarboð hjá Helgu Ömmu, það var mjög huggulegt og fínt. Mjög þægilegt að hittast svona á aðventunni í staðinn fyrir að fara í jólaboð einmitt á þessum dögum sem maður ætti bara að liggja heima yfir sjónvarpinu og namminu.

Í dag aftur á móti hef ég verið svakalega dugleg hérna heima. Ryksugaði allt að því hvert einasta dýrahár upp úr gólfinu- og það er mikið skal ég segja ykkur. Skúraði svo og þurrkaði af. Hengdi upp seríu og skrifaði öll jólakort. þvoði þvott og eldaði mat. Mér líður eins og ofurkonunni. Reyndar eru flestir dagar kannski ekki svo ólíkir þessum...eða svona...en undanfarið hef ég ekki áorkað miklu þannig að þetta eru viðbrigði.

Vissuð þið að það er hægt að fá appollo lakkrísafklippur á 400 kall kílóið uppi í Góu? Þessu vorum við að komast að og er þetta étið grimmt þessa dagana.

Jæja, þangað til næst.

miðvikudagur, desember 14, 2005

ó mæ god

Er alveg að klikkast á heyrnarleysinu. Ég þarf að reka heilbrigða eyrað (heyri þó ekki fulla heyrn á því) að fólki og biðja það að endurtaka. Nú veit ég líka afhverju mér hefur fundist sem skólabörnin væru svona róleg í dag og í gær, ég einfaldlega heyri ekki í þeim- sem er eiginlega guðsblessun.
En á eftir ætla ég að kaupa þetta pensilín sem ég fékk recept fyrir á mánudaginn og éta það bara og vona hið besta.

Að allt öðru.
Kíkti í gær í Smáralindina þó ég hefði alls ekki heilsu til. Þar var komin ný búð sem heitir Söstrene Grene. Þvílík guðsgjöf (takið eftir hvað ég er farin að ákalla Guð mikið- það eru nú að koma jól) sem þessi búð er. Þarna ægir saman allskyns drasli og settlegasta lið myndi missa sig þarna. Þarna fann ég striga strengdan á ramma á 160 kr og annað eins með ramma á 450 kr! þetta er gefins. Ég keypti skran af bestu gerð fyrir rúmar 2000 kr. og ég get ekki beðið með að komast þarna aftur. Ég hef bara mestar áhyggjur af því að þá verði sumt búið, því þetta hlýtur að klárast....
hvað á ég að gera.
Það er gott að ég þarf ekki að pæla í vatnsskorti

Maður hefur það allt of gott

þriðjudagur, desember 13, 2005

?

Eins og glöggir lesendur tóku eftir (var þetta ekki svona Aldís?) hætti ég bara allt í einu í miðjum síðasta pósti.... Málið er að þetta er gáta, þið eigið að giska á í hverslags móki ég sveif um í skólanum í dag!
jebb

Heyrnarlaus

Ekki skil ég nú hvernig þetta gerðist en allt bloggið mitt sem ég gerði áðan er horfið. Týpískt.
En ég var nú bara að röfla um hvað ég eigi ennþá bágt og er illt í eyranu þar sem allar háls- nef og eyrna lagnir (læknar myndu segja h.n.e) eru löngu orðnar yfirfullar af hori og stíflaðar og nú er ég búin að vera með hellu fyrir öðru eyranu síðan í gær. Ekki skil ég hvernig Birna Rún getur lifað við þessa hálfheyrn. Balancinn er líka hálf skrítinn og ég svíf um í hálfgerðri

Töskubransinn gengur fínt, en ég hef verið að selja þæfðar töskur fyrir Helgu ömmu. Mér finnst hún nú selja þær fullódýrt en þær gengu allavega vel ofaní garðbæskar kvinnur. Seldi 10 stk hérna í skólanum.

Svo var ég að sækja restina af glermununum eftir glernámskeiðið hérna. Þetta eru glæsilegir hlutir þó ég segi sjálf frá.
:)
Jæja, skólinn búinn og mál að koma sér í smáralindina
uppáhalds staðinn minn

Heyrnarlaus

Jæja, þá er maður kominn aftur til vinnu. Alveg yndislegt eða þannig....
Börnin eru orðin svo upptjúnuð greyin að það hálfa væri nóg. En reyni eftir fremsta megni að halda þeim rólegum og hljóðlátum því ég er ofurviðkvæm í eyrunum vegna hellu og þrýstings. Það er semsagt allt löngu orðið yfirfullt af hori sem situr nú í öllum háls- nef og eyrna lögnum (eða HNE, eins og læknarnir myndu segja) Ég heyri ekki nema hálfa heyrn og skil ekki hvernig Birna Rún getur lifað við þetta.

Töskubransinn gengur fínt og Helga amma er sjálfsagt með bólgna og auma fingur eftir að hafa saumað allar þessar töskur sem voru pantaðar en í allt hafa kvensurnar í Hofsstaðaskóla keypt 10 töskur sem gera nú 27 þús. Þær eru kaupglaðar garðbæsku konurnar og hefðu ekkert tekið eftir því þó smurt hefði verið aðeins meira á þetta en mér finnst amma verðleggja þessar töskur allt of lágt.
Ég var líka að sækja restina af glermununum sem ég gerði hérna á glernámskeiði og þetta eru geðveikt flottir hlutir- þó ég segi sjálf frá. :)
Aldrei að vita nema það leynist glerhlutur í jólapökkunum.

Talandi um jólagjafir- þarf einmitt að fara að klára þetta. Stefni á að draga Bubba minn með í bæinn næstu helgi, hann getur alveg fórnað sér einu sinni. Geri ekki miklar kröfur á hann. Bara að kaupa handa mér og dóttur sinni og mæta í Hagkaup til að máta skyrtu. Drengurinn er búinn að stækka svolítið og vantar því nýja jólaskyrtu. Nammið er svo gott. Ég er samt búin að fela makkintosh dolluna og skammta úr henni eins og mér þykir hæfilegt. Það verður að hafa einhverja stjórn á þessu.

Passið ykkur að taka því rólega í jólaösinni

sunnudagur, desember 11, 2005

Áfengisball

veikind, hélduð þið að það væri að mér? Ég er fúl út í sjálfa mig fyrir að hafa gert stafsetningarvillu- og enginn sagði neitt. Útkoman varð samt fyndin- veik kind :p

En að öðru.
Það er gott að við Íslendingar drekkum svona mikið. Hagnaðurinn er gríðarlegur fyrir ríkið og stundum er almúgafólk eins og ég svo heppið að hljóta örlítinn bita af kökuni. Þar sem ég er innundir í Áfengisverslun ríkisins var mér ásamt Ólöfu Jónu boðið á hið árlega jólaball. Ég hef heyrt af þessum veislum og sjálfsagt oft verið boðið en ekki séð ástæðu til að skoða þetta nánar fyrr en nú, þar sem blessað ungviðið hefði nú sjálfsagt gaman af þessu. Í minningunni blundar óljós minning um hrútleiðinleg jólaböll þar sem margir krakkar voru samankomnir í e-um dimmum kjallara (þetta var e-hver vetingasataður að ég held) og mandarína frá jólasveininum sem var reyndar stórfínt.
Veislan í dag var ekki svona.
Þegar inn var komið gat maður sest við hvaða uppdekkaða borð sem var. Á því var kaffi og Nóakonfekt eins og maður gat í sig látið. Eftir stutta stunda byrjaði ballið og steig á stokk engin önnur en fyrrum Stjórnin eða Grétar og Sigga. Ólöf Jóna missti sig næstum af gleði, enda konfektið að byrja að kikka inn.
Við dönsuðum svolítið í kringum jólatréð þangað til María og Masi bættust upp á sviðið. Þeir sem þekkja ekki Siggu, Maríu og Masa hafa augljóslega ekki horft á Söngvaborg 1,2 eða 3. Þetta eru átrúnaðargoð eins og Jón Páll og Siggi breik voru.
Skemmtikraftarnir sendu svo fullorðna fólkið í kaffi- en hlaðborð með allskyns kökum og heitum réttum ásamt 3 mismunandi kjötréttum og salötum biðu! Þessu gat maður skolað niður með eins miklu gosi og maður gæti þambað og ekki laust við að upp hafi vaknað þörf fyrir að hamstra gosdósir og trópífernur, slík var ofgnóttin. Svo komu börnin í kaffi og vinsælastar voru hrískökurnar (sem var auðvitað nóg af fyrir alla) og súkkulaðikökurnar. Það þarf varla að taka fram að ástandið á börnunum var vægast sagt orðið svaðalegt á sykurmælikvarðanum, en furðuróleg voru þau samt.- Miðað við allt saman.
Svo komu jólasveinarnir og eftir jóladans og jólajóla fengu allir poka með bangsa og ...hvað haldið þið- jú, aðeins meira nammi.
Og allt þetta var ókeypis. Það gerist ekki svo oft nú til dags.
Ég tók mér til gamans nokkrar myndir af dömunni á leið heim í bílnum til að skoða hvað hún umbreytist þegar komið er á þetta sykur-level. Myndirnar eru ólýsanlegar.
Ólöf Jóna pantaði strax að mæta á þetta næsta ár þegar hún er orðin 4. ára.

föstudagur, desember 09, 2005

veikind

úff, maður hefði aldrei trúað því hvað það framleiðist mikið af hori í hausnum á manni. Er heima annan daginn í röð vegna veikinda. Þetta eru samt svona veikindi að maður getur haft það bærilegt, svona 38 gráðu veikindi þar sem ég get komist með ágætis móti fram í lazy-boy og flakkað á milli stöðva en guðleg forsjón leiddi til þess að við fjárfestum í stöð 2 og samnefnda rás kennda við bíó. Þetta hefur verið sannkallaður lifesafer ásamt íbúfeninu.
Hægt er að nota dauðan tíma til þess að skrifa jólakort, en einhvernveginn skrifar maður samt ekki svo fallega með hita og þetta eru jú sjálfar jólakveðjurnar sem eiga að berast um landsbyggðina. Þannig að ég sný mér bara að sjónvarpinu aftur.
Takmark dagsins er samt að koma upp rauðu jólaseríunni í eldhúsinu og þá er ég glöð.
kannski blogga ég meira að segja aftur í dag ef mér leiðist virkilega.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Loksins Loksins

Þar sem ég hef haft svo mikla ánægju af því að kommenta á síðu frændsystkina minna hef ég ákveðið að setja á fót og senda út í alheiminn mitt eigið blogg.
Þetta eru stór skref fyrir mig þar sem ég er ekki svo ginkeypt fyrir nýjungum.