laugardagur, júlí 26, 2008

Það sem hefur verið á döfinni í sumar.

Jæja, hér eru nokkrar myndir frá sumrinu.
Kíkti í heimsókn til Dk í júní.

Hér má sjá Önnu og Úlfhildi litlu (yngstu hennar Önnu). Við vorum staddar í HM
Svo er hér ein af Helle, við fórum líka í HM :)


Mamma útkskrifaðist úr Fjölbrautarskólanum Hraðbraut. Hún dúxaði í sögu og þýsku og var líka efst á sinni braut (málabraut). Ótrúlega flottur árangur. Fyrri myndin er af þeim mömmu, Diddu frænku (sem nú er komin á Sólvang) og Stefaníu systur mömmu. Svo er mynd af mömmu að taka við viðurkenninum f. námsárangurinn.






Til hægri er mynd af okkur Bubba þar sem við stöndum við Seljalandsfoss. Mjög fín mynd verð ég að segja -enda fallegt fólk á ferð:)





Núna í júlí var ættarmót haldið á Snæfellsnesi. Niðjar Cýrusar langafa og Sigurrósar langömmu. S.s. ættin hans Hansa afa. Þetta var mjög fín ferð og veðrið var alveg frábært. Húðin er enn að flettast af Bubba eftir sólbrunann. Klikkaði alveg á kremunum -skil ekkert í mér. Í scrabble kynntist ég nýrri hlið á Bjögga frænda en hann var svo tapsár að hann falsaði stigatölurnar og olli þvílíkum ruglingi að við Bubbi fórum að þrasa síðar um kvöldið þegar ég var að fara yfir stigin og úrslitin... (spilamynd: Birna Rún-Stjáni- og Vestmannaeyjarfólkið Silja og Hansi








Við þurftum að bíða talsvert eftir matnum... Það líkaði okkur ekki. Það var svona sameiginlegur matur. Og sósan var skömmtuð MJÖG naumlega -við litlar vinsældir. En kjötið var gott. Er s.s ekki mikill aðdáandi sameiginlegs matar. Fyrir ofan er Bjöggi með niðjatalið góða og veitingar frá móður sinni ásamt sinni indælu unnustu Hrafnhildi.

Ólöf Jóna er orðin 6 ára og svo stór. Hef bara notað videovélina og filmuvélina í afmælinu hennar, svo engar verða afmælismyndirnar hér. Hún fékk fjórhjól (hvorki meira né minna) frá okkur í afmælisgjöf og hér er mynd af henni að spæna upp í námu hjá pabba sínum. (tek fram að ég var ekki með í för, enda hefði ég farið nær barninu -Bubbi er meira í því að taka svona "yfirlitsmyndir" :) Tek fram að Bubbi gat skrúfað niður bensíngjöfina svo hún kemst ekki upp úr fyrsta gír. Svo verður losað um með tímanum eftir því sem öryggisfatnaður og færni bætist við



Um daginn var 2 boðið frá GJ í dagsferð á Austfirði í kynnisferð. Það var æðisleg ferð. Gott veður og ég kom heim með fína steina og sæt barnaföt:)

Í lokin er hér mynd af mér komin 26 vikur rétt eftir afmælið mitt. (er reyndar komin 28 vikur núna - og svei mér þá ef bumban hefur ekki stækkað enn meir)

















fimmtudagur, júlí 17, 2008

Heilmikið ferðalag í dag.

Fór í dagsferð austur á firði í dag í boði Flugleiða og Tanni travel sem er ferðaþjónusta f. austan.
Þetta var voða fjör. Flugum frá RVK kl 8 til Egilsstaða og þaðan keyrðum við beint í Álverið á Reyðarfirði að fá lánaða hjálma, stoppuðum á flottum útsýnisstað v. Eskifjörð, keyrðum þaðan í gegnum Eskifjörð -þar sem mér tókst að láta smárútuna snúa við þegar ég áttaði mig á því að ég myndi ekki meika meira ferðalag nema komast á klóið. Þá var kl. um 10:30 og ég held að allar í rútunni (vorum 12) hafi verið dauðfegnar því rútan tæmdist við sjoppuna og allir komu út með ísa, nammi og fl. enda vorum við í ferðalagi og þá þarf maður sjoppumat!! það vita allir nema bíljstjórinn og guide-inn í ferðinni greinilega.
Já, svo fórum við upp í Helgustaðanámu sem er út með firði og gengum svolítið upp í fjall og þaðan inn í silfurbergsnámu. Alveg svakalega flott. Tók nokkra steina þaðan, þorði samt bara að taka 3 frekar litla því bílstýran var nýbúin að banna 12 ára stelpu sem var með í för að taka svo mikið sem pínu steinvölu. Því ef allir tækju stein að þá yrði ekkert eftir...
Það kom sér vel að hafa hjálmana í göngunum, því stundum lækkaði loftið svo mikið og ekki var skyggnið gott þarna inni. Keyrðum svo aftur inn á Eskifjörð þar sem við eyddum deginum
Fórum í Sjóhúsið og fengum fiskisúpu og fleira gott eftir að hafa fengið kynningu á starfseminni á meðan naslaður var harðfiskur, hákarl og brennivín (át mest af harðfiski en tókst að borða 1 hákarlsbita, var ánægð með það:)
Svo fórum við í siglingu á litlum bát um fjörðinn og þvínæst á sjóminjasafnið sem sýndi reyndar líka ýmsa aðra flotta hluti ótengda sjómennsku.
Næst fórum við að skoða Steinasafn Sören og Sigurborgar en þar býr ekkja sem á 2 hæða einbýlishús og neðri hæðin er undirlögð undir stórglæsilegt steinasafn og á efri hæðinni býr hún í algjörlega ofhlaðinni íbúð hvað varðar skraut og glingur. Það sá nánast hvergi í auðan blett. -nema kannski helst í loftinu sjálfu. Ég hugsaði: " þvílík vinna sem þetta verður f. ættingja hennar þegar hún fellur frá" og " Sjitt, ef það kæmi góður jarðskjálfti hérna..."
Hún var ægilega indæl og bauð okkur svo upp í ekta kaffiboð með flatkökum m. hangikjöti og kleinum og sigmundi í sparifötunum.
það sem mér fannst merkilegast er að enginn fór úr skónum nema ég, guide-inn og ein önnur stelpa. Konan var með teppi á gólfinu í stofunni og öllum fannst bara sjálfsagt að vaða inn á skónum!!!
Er þakklát fyrir gott uppeldi. Í kveðjugjöf máttum við velja slípaðan stein úr skál, og ég fékk mér okkurgulan jaspis. Ægilega fínn:)
Að lokum stoppuðum við í Eskju sem er Bókabúðin (með stóru B-i) þetta var svona Kaupfélag þar sem ALLT er til.
Keypti agalega sætan galla með kisumynstri(eitthvað voða gott danskt merki víst- man nú ekki nafnið) og lambhúshettu sem stelpan getur notað fljótlega eftir fæðingu. enda fæðist hún í okt. svo ekki veitir af hlýjum fatnaði.
Keypti prjónaða ullarvettlinga á mig á 1000 kall - það fannst mér gott verð.
Svo var brunað á flugvöllinn og nú er ég loks komin heim og er að leka úr þreytu.
En þarf að undirbúa ferð á ættarmótið sem haldið verður á Snæfellsnesi á morgun.

já og ein frétt að lokum: erum komin með kisuhró sem vældi heil ósköp fyrst, þar sem hún var alltaf að leita að kettlingunum sínum en nú er hún orðin fín:) Sigrún ættleiddi okkur að henni þar sem stelpan hennar er með kattaofnæmi. Það er góð húshjálp að hafa kött, þá koma aðrir kettir ekki inn óboðnir, köngulóarfarganið á pallinum minnkar, ekki er skitið í garðinn af öðrum köttum og fugladrit er úr sögunni. (ekki að það hafi verið mikið vandamál, en það var þó drit á grillinu um daginn...)

mánudagur, júlí 14, 2008

Meira af ísraelunum.

Þetta er nú alveg bráðfyndið dæmi.
Í dag hringdi guide-inn þeirra og sagði frá því að í hópnum væri fólk sem hefði kynnst á internetinu og hefði pantað 9 daga ferð saman til Íslands í twin herb.
Það hefur komið á daginn eftir 2 nætur að þau þola ekki hvort annað:D Þvílík viska!!

Þannig að ég er búin að senda mail á öll hótelin og ath. hvort þau geti fengið 2 sgl herb. í stað 1 twin.
Skemmst frá því að segja það gengur ekki alls staðar.
Mér finnst þetta frekar fyndið. Og svo koma smá aldursfordómar í lokin:
Hann er 29 ára, hún er 62 ára. Jebb:D

Já og svo verð ég nú að monta mig af því að í gær fór ég alein út á flugvöll að sækja 4 frakka og keyrði líka smárútuna og nýtti þar með meiraprófið mitt loksins (nýtti það nú reyndar aðeins í kringum áramótin -janúar þegar ég keyrði trukkinn)
Þetta var bara mjög gaman.

föstudagur, júlí 11, 2008

Hef komist að því að ísraelar eru klikkaðir.

Vinnan hefur verið alveg snargeðveik undanfarna daga en ég er vonandi að sjá fram úr þessu á næstu dögum. Núna eru sko að koma 5 hópar sem ég undirbý með því að panta mat fyrir þau, afþreyjingar, rútur, hótel og bara allt sem þessu fólki dettur í hug að gera.
Auðvitað er þetta mjög skemmtileg vinna en það er misjafn sauður í mörgu fé (mikið er ég viss um að ég sé að fara vitlaust með þetta orðatiltæki...) en það eru þessir árans Ísraelar sem eru algjörlega alla að drepa. Þvílíkt fólk.
Þeir eru alltaf að reyna að komast lengra en hægt er. Reyna að troða fleiri nöfnum á lokanafnalista, reyna að fá meira út úr ferðinni en þeir tímdu að borga fyrir, láta sem ekkert sé þó að þeir bæti 2 nýjum nöfnum á lokanafnalista sem þegar hefur verið sendur á hótelin þannig að maður þarf að hafa samband við 8 hótel (hópurinn fer hringferð og gistir út um allt land) til að athuga hvort að það sé í alvöru laust f. hjón, 3 dögum áður en hópurinn mætir til landsins.
Þeir eru að gera mig geðveika!!!
Eins og það liggi bara aukaherbergi út um allt land á mesta háannatímanum.
Og ég er að segja ykkur það- ein ferðaskrifstofan sem hringdi í dag alveg brjáluð af því að hópur frá þeim átti bara að fá klst. langa skoðunarferð um Rvk í rútu í stað 3 klst. ferðar -af því að hún hafði verið tekin út þar sem þeir vildu lækka verðið á ferðinni (það er ekki eins og það hafi ekki verið margtekið fram í mörgum e-mailum að þetta yrði 1 klst ferð) -Þeir eiga eftir að verða hundfúlir og fetta fingur út í það hvað þessir skoðunarferð kosti svo mikið. Og eiga eftir að reyna að fá hana ódýrari.
Vá hvað þau gerðu mig reiða í dag, og ég er aftur orðin æst.

En jæja, best að reyna að hugsa um eitthvað annað.
Mamma er að útskrifast úr hraðbraut á morgun sem stúdent. Þá getur hún farið í háskólann næsta haust. Hún hefur rétt svo verið að missa glóruna þarna því hún gerir svo miklar kröfur til sín og vill alltaf fá voða góðar einkunnir. Sem er svosem gott og blessað. En þetta er góður áfangi og ég óska henni til hamingju með þetta.
Hún fer svo til Þýskalands í næstu viku á formúluna í Hochenheim.

Jæja, ætla að fara að sofa og hugsa hlýlegar hugsanir til leiðsögumanns-greysins sem þarf að hírast með þessum ísraelum næstu vikuna. Heyrði í honum síðast um 6 leytið og hann er hálfsmeykur.

mánudagur, júlí 07, 2008

3D sónar

Jæja, þá fórum við loksins í þennan þrívíddar og fjórvíddarsónar eða 4D sem er eiginlega bara margar myndir teknar í röð og svo raðað saman, svo spilast þetta hratt þannig að það kemur út eins og stutt myndskeið, kann bara því miður ekki að setja það inn hérna svo myndirnar verða að duga)

Það var mjög gaman að fá að sjá dömuna. Maður gat séð andlitsdrætti og alltsaman. Hún kúrði sig nú ansi mikið upp að naflastrengnum til að byrja með og vildi helst ekki sleppa honum en eftir að "ljósmyndarinn" hafði ýtt og djöflast á kúlunni sleppti hún loks strengnum og sýndi sig betur en þá með þótta og pirringssvip. Setti hreinlega í brýrnar. Hefur líklega fundist þetta óþarfa læti. Hún var annars rosalega spræk og stoppaði ekki allan tímann.
Og auðvitað er þetta fallegasta barn sem til hefur verið;)

Mér finnst nafnið sem við höfum ákveðið passa enn betur við hana eftir að hafa séð hana:) En það kemur allt saman betur í ljós seinna.
Hérna er hún að hjúfra sig upp að naflastrengnum
Hér er konan búin að hamast á bumbunni og raska rónni heldur betur. Eins og stelpan sé frekar örg yfir þessu ónæði bara.
Hérna er brúnin aðeins að léttast aftur. Greinilega ekkert voðalega langrækin:)


Hér er hægt að sjá pjásuna og fæturna

Fyrir ofan: Aðeins að nudda augun. Hægt er að sjá að hún er einungis með 5 fingur á hendinni þannig að ekki erfir hún þá bæklun frá mér;) (á maganum hringast naflastrengurinn)

Fyrir neðan: að sitja fyrir á mynd.

Á myndum setur maður stút á varirnar:)


Átti erfitt með að velja úr þannig að ég setti bara nokkrar. Konan sagði að hún væri bara óvenju vel á sig komin m.v. ekki lengri meðgöngu, oft eru þau víst svo horuð á þessum tíma en þessi er víst bara nokkuð vel haldin. Vona nú samt að hún verði ekki eins og pabbi sinn.